Tíu vindorkuverkefni Zephyr Iceland
Undirbúningur að rannsóknum vindorkufyrirtækisins Zephyr Iceland á vindaðstæðum á Íslandi er nú kominn á gott skrið. Verið er að reisa fyrsta vindmastrið ásamt viðeigandi mælitækjum og er það staðsett á Mosfellsheiði. Rannsóknir eru fyrirhugaðar á fleiri stöðum á landinu og alls er fyrirtækið með tíu verkefni, sbr. kortið hér að neðan. Öll þau verkefni hafa verið tilkynnt til Orkustofnunar. Við þróun þessara verkefna er byggt á dýrmætri reynslu Zephyr í Noregi, en þar er fyrirtækið nú með tæplega 600 MW af vindafli í rekstri og reisir um 200 MW í viðbót þar n.k. sumar.
Það er Kjeller vindteknikk, sem nú er hluti af norræna fyrirtækinu Norconsult, sem sér um uppsetningu og umsjón með vindmælingunum á Mosfellsheiði. Kjeller hefur mikla reynslu af verkefnum af þessu tagi. Svæðin sem Zephyr Iceland er með til skoðunar eiga það sameiginlegt að þar eru áhugaverðar vindaðstæður. Sum svæðanna einkennast nú þegar af orkuöflun og orkuflutningi, meðan önnur búa við þrengri tengimöguleika og kalla á sterkara flutningskerfi raforku.
Enn er nokkuð í að vindmyllugarðar rísi á Íslandi. Rannsóknir og vindmælingar taka talsverðan tíma og einnig þarf að ljúka við skipulagsvinnu, mati á umhverfisáhrifum og eftir atvikum þurfa verkefnin að fara gegnum ferli Rammaáætlunar eða annars konar ferli sem kann að verða ákveðið af yfirvöldum vegna vindorkuverkefna. Að auki þarf að gera samninga um raforkusölu, jöfnunarafl, um hverfla og annan búnað, um vegagerð o.s.frv. Alt þetta ferli tekur að lágmarki nokkur ár.
Meðal fyrirtækja sem kaupa rafmagn frá vindmyllugörðum Zephyr í Noregi eru Google og Alcoa. Bæði þessi fyrirtæki gætu verið áhugaverðir viðskiptavinir á Íslandi. Ennþá er þó of snemmt að fullyrða hverjir viðskiptavinir Zephyr hér á landi koma til með að vera. Það skýrist á komandi árum, eftir því sem verkefnin þróast.
Kortið hér að neðan sýnir vindorkuverkefni Zephyr Iceland, sem nú eru tíu talsins. Í ljósi þess hversu kostnaður í vindorkutækninni hefur lækkað hratt má vænta þess að nýting vindorku á Íslandi eigi eftir að verða umtalsverð, enda hafa ýmis orkufyrirtæki tilkynnt um þó nokkur slík verkefni. Fyrir Ísland er alveg sérstaklega áhugaverð sú hagkvæmni sem unnt er að ná með samspili vindorku og vatnsafls. Það ætti því að blása byrlega fyrir vindorku á Íslandi.
Til viðbótar er vindorkuverkefni Landsvirkjunar í nágrenni Blönduvirkjunar nú þegar í nýtingarflokki og er það líka merkt á kortinu. Alls eru þetta 35 verkefni með afl samtals upp á rúmlega 3.300 MW! Þau verða augljóslega ekki öll að veruleika. Sjá má lista yfir verkefnin hér.
Höfundur er framkvæmdastjóri vindorkufyrirtækisins Zephyr Iceland. Greinin birtist fyrst á vef Kjarnans 20. apríl. 2020.